Fyrstur Vestfirðinga í fámennan hóp

Matthías Vilhjálmsson kom til Víkings frá FH í vetur.
Matthías Vilhjálmsson kom til Víkings frá FH í vetur. Ljósmynd/Víkingur

Matthías Vilhjálmsson náði stórum áfanga á knattspyrnuferlinum í dag þegar hann lék með Víkingi gegn Fylki í leik Reykjavíkurliðanna í Bestu deild karla í fótbolta á Víkingsvellinum.

Matthías lék sinn 400. deildaleik á ferlinum, heima og erlendis og er 36. íslenski knattspyrnumaðurinn í sögunni sem nær þeim leikjafjölda.

Matthías, sem er 36 ára gamall, er jafnframt fyrsti Vestfirðingurinn sem kemst í þennan fámenna hóp en hann hóf meistaraflokksferilinn með BÍ á Ísafirði aðeins 15 ára gamall árið 2002.

Matthías Vilhjálmsson í baráttu við Craig Gardner varnarmann Aston Villa …
Matthías Vilhjálmsson í baráttu við Craig Gardner varnarmann Aston Villa í Evrópuleik með FH árið 2008. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Hann lék með meistaraflokki BÍ í tvö ár, þá enn í 3. flokki, og skoraði fimm mörk í 13 leikjum fyrir félagið í 3. deildinni.

Hann gekk til liðs við FH árið 2004 og spilaði fyrsta leikinn í efstu deild með Hafnarfjarðarliðinu í lokaumferð Íslandsmótsins haustið 2005. Hann kom þá inn á sem varamaður gegn Fram og krækti í vítaspyrnu í 5:1 sigri FH-inga, sem voru þá löngu búnir að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og sendu Fram um leið niður í 1. deild.

Frá og með tímabilinu 2006, þegar Matthías var 19 ára, var hann í stóru hlutverki hjá FH og var það samfleytt í sex ár, til haustsins 2011. Þá hafði hann unnið þrjá Íslandsmeistaratitla með FH og orðið tvisvar bikarmeistari en Ísfirðingurinn skoraði tvö mörk þegar FH vann KR 4:0 í úrslitaleik bikarkeppninnar árið 2010.

Hann var sjötti markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar árið 2009 með 10 mörk fyrir FH og lék nákvæmlega sama leik árið 2011, sjötti markahæstur með 10 mörk. Alls lék hann 115 deildarleiki með FH á þessum tíma og skoraði 37 mörk.

Matthías Vilhjálmsson var leikmaður ársins 2011 hjá Morgunblaðinu þegar hann …
Matthías Vilhjálmsson var leikmaður ársins 2011 hjá Morgunblaðinu þegar hann varð efstur í M-gjöfinni. mbl.is/Golli

Matthías dvaldi auk þess í nokkar vikur hjá enska C-deildarliðinu Colchester United snemma árs 2010 og spilaði þar þrjá deildarleiki.

Í ársbyrjun 2012 fór Matthías til Noregs og lék þar samfleytt í níu ár. Fyrsta tímabilið með Start í B-deildinni en eftir það í úrvalsdeildinni. Með Start 2013-2015, með Rosenborg 2015-2018 og með Vålerenga 2019 og 2020.

Matthías varð norskur meistari með Rosenborg öll fjögur árin hjá félaginu og þrisvar bikarmeistari. Hann skoraði 18 mörk í 30 leikjum fyrir Start í B-deildinni árið 2012 og var næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar. Matthías lék síðan 189 leiki í norsku úrvalsdeildinni með Start, Rosenborg og Vålerenga og skoraði 48 mörk.

Hann sneri aftur heim í ársbyrjun 2021 og gekk til liðs við FH á nýjan leik þar sem hann var fyrirliði í tvö ár. Matthías skoraði 16 mörk í 48 úrvalsdeildarleikjum þessi tvö ár.

Fyrir þetta tímabil gekk Matthías til liðs við Víkinga, og annar leikur hans með liðinu á Íslandsmótinu í dag, gegn Fylki, var hans 400. deildaleikur á ferlinum eins og áður sagði. Í þessum 400 leikjum hefur hann skorað samtals 124 mörk. 

Matthías Vilhjálmsson skorar sigurmark í leik með Rosenborg þar sem …
Matthías Vilhjálmsson skorar sigurmark í leik með Rosenborg þar sem hann varð fjórum sinnum norskur meistari. Ljósmynd/rbk.no

Matthías á að baki 15 leiki með A-landsliði Íslands og þá lék hann á sínum tíma 23 leiki með yngri landsliðunum.

Þar með hafa nú 36 ís­lensk­ir knatt­spyrnu­menn spilað 400 deilda­leiki eða fleiri á ferl­in­um, og þar af hafa fjór­ir náð að spila 500 leiki eða meira. Síðast­ur á und­an Matthíasi til að ná þess­um áfanga var Viðar Örn Kjartansson í marsmánuði. Lista yfir alla þá leik­menn sem hafa leikið 400 leiki eða fleiri á ferl­in­um má sjá í bók­inni Íslensk knatt­spyrna 2022.

Matthías Vilhjálmsson var fyrirliði FH áður en hann fór í …
Matthías Vilhjálmsson var fyrirliði FH áður en hann fór í atvinnumennsku í Noregi og aftur í tvö ár eftir að hann sneri aftur heim. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert