HK og Fram eru bæði ósigruð eftir tvær umferðir í Bestu deild karla í fótbolta en liðin skildu jöfn í Kórnum í Kópavogi í kvöld, 1:1.
HK er þá komið með fjögur stig eftir tvo leiki en Framarar eru með tvö stig eftir tvö jafntefli.
Framarar fengu fyrsta marktækifærið á 9. mínútu þegar Aron Jóhannsson fékk sendingu frá Alberti Hafsteinssyni inn í vítateig HK hægra megin en skaut í hliðarnetið.
HK-ingar voru síðan mun hættulegri á fyrsta hálftíma leiksins og áttu nokkrar góðar sóknir þar sem Framarar sluppu með skrekkinn. Þeir björguðu á síðustu stundu frá Birki Val Jónssyni á markteig og síðan átti Ívar Örn Jónsson þrumufleyg í þverslá Frammarksins á 25. mínútu.
Marciano Aziz átti síðan góða skottilraun rétt á eftir en skaut framhjá marki Framara.
Hlynur Atli Magnússson átti lúmskan skalla að marki HK upp úr hornspyrnu á 29. mínútu en rétt framhjá.
Atli Hrafn Andrason fékk síðan dauðafæri á markteig Fram á 32. mínútu eftir sendingu Atla Arnarsonar frá vinstri en skaut rétt framhjá markinu.
Ólafur Íshólm kom Frömurum tvisvar til bjargar í sömu andránni á 37. mínútu. Fyrst varði hann skot Örvars Eggertssonar og síðan frá Atla Hrafni sem fylgdi á eftir á markteignum.
Í heildina voru HK-ingar mun sterkari í fyrri hálfleiknum og máttu teljast óheppnir að fara ekki inn í hléið með forystu í leiknum.
Framarar hófu seinni hálfleikinn á góðu færi en Aron Jóhannsson skallaði beint á Arnar Frey í marki HK.
Strax í kjölfarið komst Hassan Jalloh innfyrir vörn Framara en hitti boltann illa og Ólafur Íshólm náði að loka á hann.
Már Ægisson slapp síðan inn í vítateig HK vinstra megin og komst í gott færi en Arnar Freyr varði vel frá honum.
Og á 54. mínútu var ísinn brotinn. Fred Saraiva lék upp hægri kantinn og kom síðan með fallega fyrirgjöf, Guðmundur Magnússon kom á ferðinni og skoraði með glæsilegum hörkuskalla, efst í hægra markhornið, 0:1.
En HK var ekki lengi að jafna. Á 57. mínútu átti Atli Hrafn flotta sendingu innfyrir miðja vörn Fram, Örvar Eggertsson slapp aleinn upp að markinu og skoraði af yfirvegun, 1:1.
Eftir mörkin dofnaði heldur yfir leiknum en Framarar voru heldur beittari og áttu nokkrar ágætar marktilraunir.
Albert Hafsteinsson var nærri því að koma Fram yfir á 88. mínútu þegar hann átti hörkuskot rétt yfir mark HK eftir hornspyrnu.
Atli Þór Jónasson var nærri því að skora sigurmark fyrir HK í uppbótartímanum, rétt eins og gegn Breiðabliki, en hann skallaði beint á Ólaf í marki Fram eftir hornspyrnu.
Úrslitin voru eftir atvikum sanngjörn þar sem HK var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Fram í þeim síðari. Leikurinn var fínasta skemmtun í 60 mínútur en daufari eftir það þar til á lokamínútunum.
Góð aðsókn var á leikinn en rúmlega 1.100 manns mættu í Kórinn á þennan fyrsta heimaleik HK.