Mikið högg en þeir eru ekki fyrstu fótboltamennirnir sem eru utan hóps

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik lagði Val, 2:0, í Bestu deild karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður með úrslitin en sagði frammistöðuna hafa mátt vera betri.

„Ég er sáttur með úrslitin en ekki sáttur með frammistöðuna. Ég hefði viljað sjá okkur vera betri með boltann en ég er sáttur með vinnuna og hjartað sem menn settu í leikinn, það vantaði ekkert upp á það. Við þurfum að bæta okkur á boltanum.“

Það var mikið rok í Reykjavík á meðan leik stóð en Óskar vildi meina að það hafi ekki skipt neinu máli fyrir leikinn.

„Veðrið skipti engu máli. Við spiluðum á köflum í fyrri hálfleik fínan fótbolta undan vindi svo veðrið skipti engu máli. Við undirbúum okkur alveg eins fyrir leikinn þó það sé vindur og reynum bara að spila okkar leik.“

Óskar viðurkennir að það hafi verið smá stress í honum á meðan Blikar voru einungis einu marki yfir í leiknum.

„Það er auðvitað aldrei gott að vera 1:0 yfir á móti Val og þeir aðeina að þrýsta á okkur. Þeir kannski sköpuðu ekkert þannig að það færi eitthvað rosalega mikið um mig en ég hefði viljað að við værum með meiri stjórn á þessu. Það var smá ónotatilfinning einstaka sinnum en Valur er auðvitað bara frábært lið sem refsar ef það fær tíma og pláss. Við urðum að sjá til þess að það væri ekki til staðar.“

Oliver Stefánsson og Klæmint Olsen voru utan hóps hjá Breiðabliki annan leikinn í röð. Liðið mætir 1. deildarliði Fjölnis í bikarnum í vikunni en Óskar segir það verða að koma í ljós hvort þeir fái sénsinn þar.

„Það verður bara að koma í ljós. Ég get ekkert verið að gefa upp byrjunarliðið núna í þessu viðtali en það er mjög líklegt að þeir muni koma við sögu í þeim leik. 

Auðvitað verða allir ósáttir, það er enginn hoppandi glaður að vera utan hóps en þetta er bara svona. Oliver er flottur leikmaður sem kemur til okkar aðeins seinna en aðrir og á bara aðeins í land. Hann er að vinna sig inn í taktinn sem við erum í og vinna sig í toppform, það er ekkert auðvelt á þessum tímapunkti. Hann þarf bara að vera þolinmóður, og verður þolinmóður, ég bara treysti á það. Hann er mj0g efnilegur og við höfum mikla trú á honum, trúum að hann verði lykilmaður í framtíðinni.

Varðandi Klæmint þá bara eru Stefán [Ingi Sigurðarson] og Eyþór [Aron Wöhler] á undan honum. Hann verður bara að æfa og bíta í það súra epli að vera utan hóps í dag og síðast. Svo verða menn bara að mæta á æfingu og það er bara það eina sem ég get sagt. Það eru bara 11 stöður í byrjunarliðinu og 18 í hóp og þeir 18 sem standa sig best eru þar. Hinir þurfa bara að leggja harðar að sér og eru vel meðvitaðir um það. 

Auðvitað eru þeir fúlir, sérstaklega þegar það er risa frétt í hvert skipti sem þeir eru utan hóps. Eðlilega verða menn sárir. Þetta eru bara menn með sálir og egó, og þetta er högg fyrir egóið. Þeir eru báðir frábærir leikmenn og sama með Alex Frey [Elísson] sem var utan hóps síðast. Þetta er mikið högg fyrir alla en sem betur fer eru þetta ekki fyrstu leikmennirnir sem eru utan hóps hjá fótboltaliði svo þeir geta leitað í reynslubanka annarra manna.“

Anton Logi Lúðvíksson fór meiddur af velli í liði Breiðabliks í leiknum en hann meiddist á öxl. Hann virkaði sárþjáður á vellinum og litu meiðslin hreinlega ekki vel út.

„Það var nú talað um að þetta væri bara högg á öxlina, að hann hafi ekki farið úr lið. Ég svo sem veit það ekki, hef ekki fengið nýjustu fréttir af meiðslunum en við fyrstu skoðun leit þetta ekki út fyrir að vera alvarlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert