Ósáttur við yfirlýsingu fyrirliðanna

Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórir Hákonarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri KSÍ, er ósáttur við yfirlýsingu sem fyrirliðar Bestu deildar kvenna í fótbolta sendu frá sér í gær.

Fyr­irliðunum þykir sem halli mjög á Bestu deild kvenna á kostnað Bestu deild­ar karla þrátt fyr­ir ÍTF hafi gefið það út að um eitt sam­eig­in­legt vörumerki sé að ræða.

Af þeim sök­um hafa leik­menn allra tíu liðanna tekið sam­eig­in­lega ákvörðun um að mæta ekki til ÍTF næst­kom­andi mánu­dag, þar sem til stóð að taka upp markaðsefni fyr­ir kom­andi tíma­bil.

Þórir lýsti yfir óánægju með uppátæki fyrirliðanna á Twitter í gær. „Eitt það ómerkilegasta sem ég hef séð á 35 ára ferli í fótbolta, virkilega lélegt,“ skrifaði hann einfaldlega. Þá svaraði hann öðrum notendum á Twitter og bætti þar við að um dónaskap að hálfu fyrirliðanna væri að ræða.

Yfirlýsing fyrirliða í Bestu deild kvenna í heild sinni:

„Í aðdraganda Bestu deildar kvenna hefur undirbúningur og vinnubrögð ÍTF verið í besta falli skammarleg. Ítrekað hafa komið upp atvik sem gera lítið úr kvennaknattspyrnu á Íslandi, og sem opinbera það að áhersla ÍTF er á Bestu deild karla, en ekki deildirnar tvær til jafns - þrátt fyrir yfirlýsingar ÍTF að um eitt vörumerki sé að ræða.

Við hörmum það mjög að þetta sé staðan þegar svo stutt er í mót, og að enn eitt árið halli á kvennaknattspyrnuna á Íslandi. Við vonum að ÍTF sjái að sér og fari að sinna báðum deildum, eins og þeirra hlutverk sannarlega er.

Af þessum sökum höfum við tekið þá ákvörðun að leikmenn munu ekki mæta á mánudaginn til ÍTF þar sem áætlað var að taka upp markaðsefni fyrir komandi tímabil.

Við hvetjum alla til þess að mæta á leik Vals og Stjörnunnar á mánudaginn kemur og sýna þannig kvennaknattspyrnunni stuðning.

Fyrir hönd félaga í Bestu deild kvenna, Fyrirliðar félaga í Bestu deild kvenna

Júlíana Sveinsdóttir, ÍBV

Kristrún Ýr Hólm, Keflavík

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, Þróttur

Anna María Baldursdóttir, Stjarnan

Ásta Eir Árnadóttir, Breiðablik

Bryndís Rut Haraldsdóttir, Tindastóll

Sandra María Jessen, Þór/KA

Elísa Viðarsdóttir, Valur

Unnur Dóra Bergsdóttir, Selfoss

Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir, FH“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert