Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK sagði við mbl.is eftir jafnteflið gegn Fram í kvöld, 1:1 í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum að hann væri nokkuð sáttur við að vera með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.
HK vann Breiðablik óvænt í fyrstu umferðinni en liðinu var af flestum spáð botnsæti deildarinnar eftir að hafa komið aftur upp úr 1. deildinni.
„Mér fannst við vera með yfirhöndina í fyrri hálfleik og við hefðum átt að fara inn með alla vega eitt til tvö mörk í forskot. Í seinni hálfleik fengum við á okkur mark en komum strax til baka sem mér finnst virkilega sterkt.
Eftir það fannst mér vera full mikil hræðsla í okkur við að reyna að sækja sigurinn, við værum frekar að reyna að halda velli. Þá var eins og bæði liðin væru sátt og vildu reyna að nýta einhver af þeim fáu færum sem myndu gefast eftir það.
Við verðum að virða stigið eins og leikurinn spilaðist en ég er svekktur yfir því að hafa ekki farið með forskot inn í hálfleikinn því við fengum tvo til þrjá virkilega góða sénsa. Sláarskotið frá Ívari, Atli Hrafn náði frákasti en nýtti ekki færið. Við verðum bara að gera betur í svona lokuðum leikjum og nýta þessa sénsa sem gefast," sagði Leifur við mbl.is.
En þetta var frekar erfitt á köflum í seinni hálfleiknum?
„Já, það var það. Ég veit ekki hvort það var komin einhver þreyta í menn, það ætti ekki að vera, en mér fannst eins og liðin væru nokkuð sátt við stöðuna.“
„Eftir byrjunina á mótinu og þennan ótrúlega sigur á Blikum, hvernig var að gíra sig inn í þennan leik gegn Fram?“
Það var svo sem ekkert mál. Þetta er tiltölulega þægilegt fyrir okkur því það býst enginn við neinu af liðinu. Við höfum í raun engu að tapa. Við áttum tvo til þrjá góða daga en við settum fókusinn strax á þennan leik við Fram. Ég held að Blikaleikurinn hafi ekki truflað okkur, miðað við hvað við komum sterkir inn í þennan leik, en ef við hefðum tapað í kvöld þá hefðu allir sagt að hann hefði truflað okkur!
En það var fyrst og fremst gott að fá stigið og koma til baka í annað sinn eftir að hafa lent undir. Það er virkilega sterkt og sýnir karakter í hópnum.“
Fjögur stig eftir tvo leiki, ertu ánægður með það?
„Fyrir mót hefði ég svo sannarlega tekið því, en við viljum ekki tapa mikið af stigum á heimavelli. Fyrst við unnum Blikana þá vildum við vera með sex stig eftir tvo leiki. En við getum verið tiltölulega sáttir.
Þetta verður allt hörkuspennandi, við höfum margt að afsanna og verðum að halda áfram. Þetta eru bara tveir leikir af 27 og við megum ekki dvelja lengi við þá," sagði Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK og leikjahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins.