Guðmundur Magnússon skoraði mark Fram gegn HK í jafnteflisleik liðanna í Kórnum í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld, 1:1, og kvaðst ekki nægilega sáttur við úrslitin.
„Já og nei. Það var erfitt að koma hingað eftir þetta þrusustart þeirra á móti Breiðabliki. Þeir voru sterkari aðilinn framan af en eftir að við fórum að spila okkar bolta og finna svæðin, þá fannst mér við vera betri og hefðum verðskuldað sigur. Þeir fengu kannski hættulegri færi, sem við gáfum þeim á silfurfati, en ég hefði verið sáttari með þrjú stig,“ sagði Guðmundur við mbl.is eftir leikinn.
Er sanngjarnt að segja að HK hafi verið betri í fyrri hálfleik og þið í þeim síðari?
„Já, algjörlega. Við fórum að nýta okkar styrkleika betur í seinni hálfleiknum.“
Tvö stig úr tveimur jafnteflum, þið eruð væntanlega ekki alveg nógu sáttir við byrjunina á mótinu?
„Nei, en ef við berum þetta saman við árið í fyrra þegar við vorum stigalausir eftir tvo leiki og með markatöluna 3:8, þá finnst mér við líta betur út núna. Við erum með tveimur stigum meira og við þurfum bara að halda áfram. Þetta er hraðmót núna í byrjun og við þurfum bara að tína til stigin.“
Breytingarnar á liðinu frá því í fyrra eru ekki miklar. Hjálpar það til?
„Já, við erum tilbúnari en í fyrra. Við erum með góðan kjarna, og svo höfum við fengið menn til að fylla í hópinn og þeir koma vonandi inn með sína styrkleika. Aron Jóhannsson hefur komið fínn inn, Adam Örn Arnarson er að vinna sig inn, búinn að vera í meiðslaströggli síðustu ár en er á leið með að verða heill, Orri Sigurjóns er að koma inn í þetta en hann hefur búið erlendis og er ekkert búinn að spila fótbolta síðustu mánuðina. Þeir tínast inn.“
Og þú heldur áfram að skora, 17 mörk í fyrra og tvö í fyrstu tveimur í ár. Hvernig var markið þitt í kvöld frá þínu sjónarhorni?
„Ég sá að Fred átti möguleika á að leggja boltann fyrir sig og senda hann fyrir markið. Ég kom mér á fjærstöngina, stökk upp og var sterkari, náði að hanga aðeins í loftinu og skalla hann í hornið fjær. Ef boltinn kemur frá hægri, þarftu að setja hann í sömu átt og stýra honum, og ég hitti hann vel þannig að þetta tókst.“
Stefnirðu á sama markafjölda?
„Sjálfstraustið er nóg, þeir vita hvar ég er og ég ræðst á boltann í teignum. Ég er í toppstandi og mér líður vel. Vonandi næ ég að skora svipað en það spyrja mig margir að þessu. Ég set ekki óþarfa pressu á mig, verð sáttur ef ég næ tíu mörkum. Allt umfram það er geggjað. Núna er Jannik líka með mér frammi, þó hann sé reyndar meiddur eins og er. Við vegum hvor annan vel upp og svo erum við með galdramenn fyrir aftan okkur þannig að þetta lítur bara vel út.