Víkingar læra að þjást

Logi Tómasson gefur fyrir í leiknum í kvöld.
Logi Tómasson gefur fyrir í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Logi Tómasson, vinstri bakvörður Víkings var veðurbarinn og sáttur eftir 2:0-sigur gegn Fylki í Bestu deild karla í knattspyrnu á Víkingsvelli í kvöld. Víkingar eru með fullt hús stiga eftir tvo leiki en Ábæingar stigalausir.

„Þetta var iðnaðarsigur. Við vorum að læra að „suffera“ eins og Arnar þjálfari sagði í auglýsingunni,“ sagði Logi við mbl.is að leik loknum. Vitnaði hann þar í auglýsingu fyrir Bestu deildina fyrir mót þar sem Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, hélt leikmönnum sínum í ísbaði þar sem þeir lærðu að þjást (suffer).

Víkingar voru komnir í tveggja marka forystu eftir 15 mínútna leik og Logi sagði að leikmenn hefðu bara reynt að sigla sigrinum heim í slagviðrinu í seinni hálfleik.

„Þá var svo mikill mótvindur að það var best að falla til baka,“ sagði Logi. 

Bakvörðurinn er ánægður með byrjunina á mótinu, tveir 2:0-sigrar en hann merki mikla samheldni í hópnum og segir menn berjast fyrir félagann.

Víkingar eiga útileik gegn KR í næstu umferð og hlakkar Logi til. „Það er alltaf gaman að spila við KR og mikill slagur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert