Sannfærandi hjá Víkingum gegn Fylki

Davíð Örn Atlason og Benedikt Daríus Garðarsson eigast við í …
Davíð Örn Atlason og Benedikt Daríus Garðarsson eigast við í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingur sigraði Fylki, 2:0, í annarri umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Víkingsvelli nú síðdegis. Fossvogspiltar eru með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en Árbæingar eru enn stigalausir.

Heimamenn hófu leikinn af miklum krafti og það var Birnir Snær Ingason sem skoraði fyrsta markið á 10. mínútu. Hann fékk þá boltann vinstra megin í teignum, lék aðeins áfram og lét vaða. Boltinn hafði örlitla viðkomu af varnarmanni og söng í fjærhorninu.

Víkingar héldu áfram að sækja og bættu öðru marki við fimm mínútum síðar. Varnarjaxlinn Oliver Ekroth skallaði þá boltann í slá og inn eftir góða fyrirgjöf Loga Tómassonar frá vinstri.

Fátt markvert gerðist þar sem eftir lifði fyrri hálfleiks í austan slagviðrinu í Fossvoginum og heimamenn með tveggja marka forystu að honum loknum.

Fátt markvert gerðist í seinni hálfleik. Víkingar virtust sáttir við stöðuna, enda með tveggja marka forystu og gestirnir náðu aldrei að ógna þeim að neinu viti.

Sigur Víkinga var aldrei í hættu en ef eitthvað er að marka fyrstu tvær umferðirnar ætla bikarmeistararnir að blanda sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.

Fylkismenn verða hins vegar að gera betur ef þeir ætla ekki að vera í harðri fallbaráttu í sumar. Þeir voru undir á öllum sviðum og náðu ekki einu sinni að sýna það sem lið Fylkis hafa verið þekkt fyrir í gegnum tíðina; almennilega baráttu og læti.

Víkingur R. 2:0 Fylkir opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert