Vona að fólk fylki sér á bakvið liðið

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, vonast til þess að íslenskir stuðningsmenn fjölmenni á Laugardalsvöll í komandi verkefnum íslenska karlalandsliðsins í júní.

Ísland mætir Slóvakíu í J-riðli undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli hinn 17. júní og svo Portúgal á Laugardalsvelli, þremur dögum síðar, hinn 20. júní.

„Næsti leikur liðsins er á Þjóðhátíðardaginn sjálfan og ég bind miklar vonir við það að þjóðin og stuðningsmenn landsliðsins séu jafn spennt fyrir þessu verkefni og við hjá KSÍ,“ sagði Vanda í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal á föstudaginn.

„Næsti leikur er svo líka heimaleikur gegn Portúgal þar sem Cristiano Ronaldo gæti spilað sinn 200. landsleik á ferlinum þannig að þetta eru mjög spennandi leikir sem framundan eru.

Ég vona innilega að fólk mæti á völlinn og hvetji liðið áfram,“ sagði Vanda í samtali við mbl.is en Norðmaðurinn Åge Hareide var ráðinn þjálfari íslenska liðsins á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert