„Grasið hérna er grænt“

Úr leik ÍBV á Hásteinsvelli síðastliðið haust. Jón Ingason er …
Úr leik ÍBV á Hásteinsvelli síðastliðið haust. Jón Ingason er hér með boltann. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristján Yngvi Karlsson, vallarstjóri Hásteinsvallar, aðalvallar ÍBV í Bestu deildum karla og kvenna í knattspyrnu, segir völlinn sjálfan reiðubúinn til notkunar.

ÍBV víxlaði á heimaleikjum við KA og lék því ekki á Hásteinsvelli í annarri umferð Bestu deildar karla í gær eins og til stóð.

„Ég hefði viljað spila síðasta sunnudag í stað þess að skipta leiknum. Ástæðan fyrir því að við skiptum þessum leik er ekki út af grasinu á vellinum heldur vegna þess að það fuku allar girðingar síðasta haust og það er verið að færa þær aftar þannig að ef við myndum setja gervigras værum við með löglega stærð.

Svo er verið að steypa upp fyrir nýrri vallarklukku og það er verið að laga fyrir framan skýlin hjá okkur, setja dren og svoleiðis. En grasið hérna er bara grænt og er búið að vera það í svona eina og hálfa viku,“ sagði Kristján Yngvi í samtali við mbl.is.

Alls ekki verri en á síðasta tímabili

„Ég var hálf sár yfir því að þetta hafi verið svona því það hefði verið svo gaman að spila þennan leik hérna heima.

Ég er ekki að segja það að völlurinn sé í toppstandi en hann er alls ekki verri en þegar við byrjuðum að nota hann á síðasta tímabili,“ bætti hann við.

Hugsa að leikurinn verði spilaður

Kristján Yngvi sagði því völlinn sjálfan vera kláran fyrir fyrsta heimaleik, leik karlaliðsins gegn Breiðabliki í þriðju umferð Bestu deildarinnar eftir sex daga, þó ekki væri hægt að segja það sama um umgjörðina.

„Völlurinn er klár fyrir sumarið fyrir utan umgjörðina á honum. Það er verið að berjast við að ná því fyrir næsta leik. Mér er sagt að það náist.

Ég hugsa að þessi leikur verði spilaður, þetta er komið það langt að við gætum sópað öllu þessu drasli út af og spilað þennan leik. En hvort að umgjörðin um leikinn verði 100 prósent klár, það er síðan annað mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert