ÍTF, Íslenskur toppfótbolti, fundaði í dag með forráðaaðilum úr Bestu deild kvenna. Í yfirlýsingu ÍTF kemur fram að um gagnlegan fund hafi verið að ræða, þar sem rætt var opinskátt um markaðssetningu deildarinnar og það sem betur mætti fara.
Fyrirliðar Bestu deildar kvenna sendu frá sér yfirlýsingu um helgina, þar sem þeir létu óánægju sína í ljóst vegna halla á Bestu deild kvenna á kostnað Bestu deildar karla. Þá tóku leikmenn ákvörðun um að mæta ekki til ÍTF, þar sem stóð til að taka upp markaðsefni fyrir komandi tímabil.
„Í aðdraganda Bestu deildar kvenna hefur undirbúningur og vinnubrögð ÍTF verið í besta falli skammarleg. Ítrekað hafa komið upp atvik sem gera lítið úr kvennaknattspyrnu á Íslandi, og sem opinbera það að áhersla ÍTF er á Bestu deild karla, en ekki deildirnar tvær til jafns - þrátt fyrir yfirlýsingar ÍTF að um eitt vörumerki sé að ræða,“ sagði m.a. í yfirlýsingu fyrirliðanna.
Tilkynning ÍTF vegna Bestu deildar kvenna:
Stjórn ÍTF fundaði nú í dag með forráðaaðilum úr Bestu deild kvenna þar sem rætt var opinskátt um markaðssetningu deildarinnar, markaðsefni og ýmislegt það er viðkemur deildinni.
Fundurinn var afar gagnlegur, farið var yfir málefni Bestu deilda kvenna sem hafa verið til umræðu síðustu daga, fyrirspurnum svarað og boðleiðir skýrðar. Almennt var góð umræða um hvað má betur gera og fundarmenn sammála um að það sé hagur allra að taka til greina réttmæta gagnrýni sem komið hefur fram.
Sameinuð munum við gera komandi sumar að jákvæðri og skemmtilegri upplifun allra sem koma að þessari einstöku og fallegu íþrótt, knattspyrnunni.
Virðingarfyllst, ÍTF