Stjarnan lagði Val í vítaspyrnukeppni í Meistarakeppni kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.
Mikil umræða hefur verið í samfélaginu undanfarna viku varðandi kvennaknattspyrnu á Íslandi en ÍTF (Íslenskur Toppfótbolti) hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir vinnubrögð sín gagnvart kvennaknattspyrnunni í aðdraganda Íslandsmótsins.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, tjáði sig um málið í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.
„Þegar við vorum að setja upp leikinn á sunnudaginn vorum við að pæla hvar áherslurnar í þessum leik myndu liggja. Auðvitað er bikar í boði en þetta er fyrst og fremst loka general-prufa fyrir Íslandsmótið, erfiður leikur á móti Íslandsmeisturunum á þeirra heimavelli.
En um leið og yfirlýsingin kom frá fyrirliðunum, sáum við að þessi leikur var kominn í allt annað samhengi. Þá var hvatinn kominn fyrir þennan leik, það átti að nota þennan leik í baráttunni. Þetta er bara barátta kvenna í knattspyrnu og íþróttakvenna fyrir tilverurétti í raun og veru, sem er fáránlegt. Það er að taka allt of langan tíma fyrir fólk sem er í stjórnunarstöðum í knattspyrnunni eða hvar sem er, að átta sig á því hversu hratt kvennaknattspyrnan er að rúlla.
Mér sýnist bara að fólkið í kringum okkur höndli ekki hraðann sem við erum á og sjá ekki heldur tækifærin sem eru í þessu. Ég ætla bara að biðja fólk um að líta aðeins upp úr eigin holu og sjá hvað er að gerast. Við lögðum upp leikinn að hann yrði ákveðið verkfæri, að það yrði góð umgjörð. Það var eitthvað til að stefna á, það kom fólk á leikinn og maður fann umræðuna í samfélaginu að þetta var ákveðið verkfæri í þessari baráttu, þannig litum við á þennan leik.“