Óskar birtir byrjunarlið miðvikudagsins á Twitter

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks í karlaflokki í fótbolta, hefur birt á Twitter byrjunarlið sitt fyrir bikarleik gegn Fjölni sem fram fer eftir rúmlega tvo sólarhringa.

Þetta kemur í framhaldi af viðtali við Óskar eftir leik Breiðabliks og Vals í Bestu deild karla í gærkvöld en þar sagði hann m.a. við Gunnlaug Jónsson á Stöð 2 Sport, en þá spurði Gunnlaugur hann út í byrjunarlið Breiðabliks  sem hefði verið „lekið“ til andstæðinga fyrir tvo fyrstu leikina í deildinni:

„Ekki hugmynd um það. Þú ert að segja mér fréttir, en það ætti ekkert að koma á óvart. Því var líka lekið í fyrsta leiknum og þú færð mig ekkert til að tala um að einhver sé að kjafta frá. Svona er fótboltinn orðinn. Við höfum oft fengið byrjunarlið andstæðinga okkar. Menn tala, hittast, eru alls staðar og hvergi. Þetta skiptir engu máli. Við getum sent Úlfi, þjálfara Fjölnis, byrjunarliðið á þriðjudaginn. Það skiptir engu máli hvort þessi eða hinn sé með. Það sem skiptir máli er að þeir sem byrja séu klárir, ef menn vilja segja frá byrjunarliðinu þá gera þeir það, en það væri betra ef það væri haldið innanhúss en fyrst að svo er þá er það bara þannig."

Þarna kemur m.a. fram að Oliver Stefánsson og Klæmint Olsen sem ekki hafa komist í 18 manna hóp Blika í fyrstu tveimur umferðum deildarinnar verði í byrjunarliðinu gegn Fjölni, ásamt Brynjari Atla Bragasyni varamarkverði.

Þess má geta að Óskar skrifaði síðast færslu á Twitter í september árið 2019.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert