Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður eftir sigur á Val í vítaspyrnukeppni í Meistarakeppni kvenna á Hlíðarenda í kvöld.
„Þetta var barningur. Ég var ekki alveg nógu ánægður með hvernig við spilum leikinn en baráttan var fín og það var gott að vinna.
Í byrjun vorum við allt of langt frá þeim, allt of langt frá boltamanninum í þeirra liði. Okkur fannst pressan ekki virka, fremst og þegar þær voru að spila upp völlinn. Okkur fannst við aldrei klukka þær. Í uppspilinu vorum við of ragar við að spila út en þegar leið á fyrri hálfleikinn fór þetta að lagast.
Í seinni hálfleik fannst mér þetta vera allt í lagi. Við vorum kannski heppin að fá ekki á okkur mark á síðustu 20 mínútunum.“
Stjarnan vann einnig Lengjubikarinn í vetur og er þetta því annar bikar liðsins á undirbúningstímabilinu.
„Ég er mjög sáttur í bikurum talið. Við stefndum á að komast allavega í undanúrslitin í Lengjubikarnum því það skiptir miklu máli að fá þessa auka leiki í lok mars og byrjun apríl. Ef við hefðum ekki komist þangað hefðum við þurft að leita að æfingaleikjum í sex vikur og það er frekar glatað. Við náðum í þessa tvo aukaleiki og svo þennan og það hentaði bara mjög vel, það var auðvitað landsleikjahlé þarna á milli.
Við fórum ekki í æfingaferð út, fyrst og fremst því seðlabankastjóri hringdi og sagði að við ættum ekki að eyða mikið af evrum! Nei, nei, fyrst og fremst var þetta af því að við fórum í æfingaferð í júlí í tíu daga sem gekk svo vel að við þurftum ekkert að fara núna. Við einbeittum okkur bara að því að æfa og spila þessa leiki hérna heima.“
Erin Mcleod hefur staðið í marki Stjörnunnar undanfarið en Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving er einnig leikmaður liðsins. Kristján segir Mcleod vera aðalmarkmann liðsins að svo stöddu en það sé klárlega samkeppni um stöðuna.
„Erin er í markinu eins og er en það er samkeppni um stöðuna, það er alveg klárt mál. Þannig er staðan, Auður er að koma til baka eftir að hafa meiðst á úrtaksæfingu í nóvember og hún er nánast komin til baka. Hún spilaði einn og hálfan leik með U23 ára liðinu úti í Danmörku sem var bara fínt fyrir hana en hún er öll að koma til. Það er alveg hörku samkeppni um stöðuna og þær vita það alveg.“