Sævar Leifsson, vallarstjóri gras- og aðalvallar Keflavíkur í Bestu deildum karla og kvenna í knattspyrnu, segir stöðuna á vellinum ekki góða.
Ekki var unnt að spila á honum þegar Keflavík mætti KR í fyrsta heimaleik karlaliðsins í Bestu deildinni um liðna helgi. Þess í stað var leikið á gervigrasvellinum við hlið Reykjaneshallarinnar.
„Staðan á vellinum er bara ekkert sérstök,“ sagði Sævar um aðalvöllinn í samtali við mbl.is.
Hann kvaðst ekki vita nákvæmlega hvenær hægt yrði að spila a aðalvellinum en að það yrði að minnsta kosti ekki í þessari viku.
„Við skoðum það í næstu viku hvernig þetta lítur út. Það er bikarleikur á miðvikudaginn sem er skráður á gervigrasinu. Svo er leikur aðra helgi og það verður tekin ákvörðun í næstu viku um hvar hann verður spilaður.“
Keflavík fær ÍA í heimsókn í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla næstkomandi miðvikudag og verður sá leikur spilaður á gervigrasvellinum við hlið Reykjaneshallarinnar.
Næsti heimaleikur er svo leikur karlaliðsins gegn ÍBV eftir þann 29. apríl og líkt og Sævar segir kemur það i ljós í næstu viku hvort unnt verði að spila hann á aðalvellinum.