Stjarnan lagði Val að velli, 4:3, eftir vítaspyrnukeppni í Meistarakeppni KSÍ á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 0:0 en farið var beint í vítaspyrnukeppni.
Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og fengu bæði lið tækifæri til að komast yfir. Valur fékk líklega þrjú bestu færin í hálfleiknum en þær Ísabella Sara Tryggvadóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir komust báðar einar gegn Erin McLeod í marki Stjörnunnar en sú kanadíska varði í bæði skiptin.
Þá fékk Ásdís annað gott færi á 41. mínútu þegar Bryndís Arna Níelsdóttir komst inn í slaka sendingu Eyrúnar Emblu Hjartardóttur úr öftustu línu en Ásdís náði ekki að halda boltanum niðri og setti hann yfir markið frá vítateigslínu.
Heiða Ragney Viðarsdóttir átti bestu tilraun Stjörnunnar í fyrri hálfleiknum en hún fékk boltann rétt fyrir utan teig í uppbótartíma en smellti honum í þverslána. Skotið var mjög gott og Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður Vals, stóð frosin á línunni, en því miður fyrir Stjörnuna fór það í slána og yfir. Staðan í hálfleik var því markalaus.
Seinni hálfleikurinn var hins vegar afar rólegur en mjög fátt var um færi. Bæði lið voru í vandræðum með að halda boltanum innan liðsins og skapa sér góðar stöður. Þegar leið á hálfleikinn fór Valsliðið að halda boltanum aðeins betur en áfram gekk illa að skapa færi.
Alma Mathiesen átti líklega bestu tilraun Stjörnunnar í seinni hálfleik á 51. mínútu en hún átti þá hörkuskot úr þröngu færi hægra megin í teignum eftir gott einstaklingsframtak á hægri vængnum.
Á lokamínútum leiksins fór Valur þó að koma sér í færi og var Bryndís Arna þar fremst í flokki. Hún fékk besta færi seinni hálfleiksins á 83. mínútu en hún mokaði boltanum þá yfir markið úr teignum. Allt kom því fyrir ekki og að loknum venjulegum leiktíma var staðan enn markalaus, og því var farið í vítaspyrnukeppni.
Þar reyndist Stjarnan sterkari en Erin McLeod tryggði Stjörnunni sigur með því að verja fimmtu spyrnu Vals, frá Ásdísi Karen. Stjarnan skoraði úr öllum fjórum spyrnum sínum en auk vítaspyrnu Ásdísar brenndi Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði, af hjá Val.
Stjarnan er því sigurvegari Meistarakeppninnar árið 2023 en þetta er annar titill liðsins í vetur. Liðið vann deildabikarinn fyrr í vetur, einnig eftir vítaspyrnukeppni.