Magnús Valur Böðvarsson, vallarstjóri Meistaravalla, aðalvallar KR í knattspyrnu, segir völlinn ekki tilbúinn til notkunar að svo stöddu.
„Hann er ekki klár eins og staðan er núna en hann er ekkert í líkingu við það sem var í Kaplakrika. Ég er að setja dúka yfir hann núna en hann lítur ekkert frábærlega út,“ sagði Magnús Valur í samtali við mbl.is í gær.
Viðtalið fór fram skömmu áður en tilkynnt var að Víkingur úr Reykjavík hafi samþykkt að skipta á heimaleikjum við KR, en Vesturbæjarliðið átti settan heimaleik í þriðju umferð Bestu deildar karla í næstu viku. Leikurinn fer þess í stað fram á Víkingsvelli, sem er gervigrasvöllur.
„Það er byrjað að grænka grasið en það vantar bara betri vöxt í völlinn. Vöxturinn er akkúrat að byrja núna. Við erum náttúrlega að koma út úr versta vetri í hundrað ár og það er auðvitað að hafa áhrif,“ útskýrði hann.
Magnús Valur sagði að hefði Víkingur ekki samþykkt skipti á leikvöllum hefði leikurinn farið fram á Meistaravöllum, þó hætt hefði verið við leðjuslag á grasvellinum vegna rigningarspár.
„Völlurinn er svo sem leikhæfur eins og staðan er núna en miðað við veðurspána gæti verið grenjandi rigning á leikdag og það myndi þýða að það yrði rennandi blautt.
Þá gæti þetta orðið einhver leðjuslagur og það vill það náttúrlega enginn. En eins og staðan er núna er hann ekki klár en ég er að reyna að gera allt sem ég get gert til þess að hann verði sem skástur.
Hann yrði aldrei frábær en verður allavega talsvert grænni en maður sér með hina vellina, eins og var til dæmis í Kaplakrika um daginn. En það vantar bara betri vöxt.“
KR á heimaleik í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla annað kvöld, gegn 2. deildar liði Þróttar úr Vogum, og fer hann fram á gervigrasinu í Vesturbæ, heimavelli 2. deildar liðs KV.