Breiðablik er spáð Íslandsmeistaratitlinum á komandi keppnistímabili í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni.
Spáin var opinberuð á kynningarfundi deildarinnar í höfuðstöðvum Sýn á Suðurlandsbraut í dag en Blikar enduðu í þriðja sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.
Athygli vekur að Val, ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum, er spáð þriðja sætinu í spánni og þá er Keflavík og Tindastóli spáð falli úr deildinni.
Litlu munar á Stjörnunni, sem spáð er öðru sætinu, og Breiðabliki en Blikar fengu 242 stig í spánni á meðan Stjarnan fékk 238 stig.
Spáin fyrir Bestu deild kvenna:
1. Breiðablik - 242 stig
2. Stjarnan - 238 stig
3. Valur - 216 stig
4. Þróttur R. - 198 stig
5. Þór/KA - 154 stig
6. Selfoss - 145 stig
7. ÍBV - 106 stig
8. FH - 75 stig
9. Keflavík - 60 stig
10. Tindastóll - 51 stig