Kristinn Jónsson, hinn sókndjarfi vinstri bakvörður KR-inga, var besti leikmaðurinn í annarri umferð Bestu deildar karla í fótbolta sem leikin var um helgina, að mati Morgunblaðsins.
Kristinn fékk tvö M fyrir frammistöðu sína í sigurleik Vesturbæinga gegn Keflavík suður með sjó, 2:0, þar sem hann kom KR yfir með glæsilegu marki utan af kanti og hafði áður átt bylmingsskot í þverslána á Keflavíkurmarkinu.
Kristinn er 32 ára gamall Kópavogsbúi, uppalinn í Breiðabliki, og lék með meistaraflokki Kópavogsliðsins frá 2007 til 2017, að því undanskildu að 2014 lék hann með Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni, 2016 með Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni, og árið 2017 hóf hann með Sogndal í sömu deild en fór síðan heim til Breiðabliks.
Hann varð bikarmeistari með Blikum 2009 og var í fyrsta Íslandsmeistaraliði þeirra árið 2010 og er sjöundi leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild.
Kristinn hefur leikið með KR frá 2018 og varð Íslandsmeistari með Vesturbæingum árið 2019. Á meistaraárinu var hann jafnframt efstur í M-gjöf Morgunblaðsins af öllum leikmönnum deildarinnar.
Lið annarar umferðar má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.