Karlalið ÍA í knattspyrnu hefur fengið sænska miðvörðinn Pontus Lindgren að láni frá KR.
Lindgren er ætlað að fylla skarð skoska miðvarðarins Alexander Davey, sem sleit hásin á dögunum og verður því að öllum líkindum ekkert með á tímabilinu.
Svíinn gekk til liðs við KR frá Sylvia í heimalandinu fyrir síðasta tímabil og lék 16 leiki í Bestu deildinni, auk þriggja bikarleikja og tveggja Evrópuleikja.
Hann hefur ekkert komið við sögu hjá KR á yfirstandandi tímabili og mun nú freista þess að hjálpa Skagamönnum beint aftur upp úr næstefstu deild eftir að liðið féll úr Bestu deildinni á síðasta tímabili.
Lindgren fær leikheimild á morgun og getur því tekið þátt í leik ÍA gegn Keflavík í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar annað kvöld.