Kvennalið Tindastóls í knattspyrnu hefur samið við danska miðjumanninn Sofie Dall Henriksen um að leika með liðinu á komandi tímabili.
Tindastóll er nýliði í Bestu deild kvenna eftir að hafa hafnað í öðru sæti næstefstu deildar á síðasta tímabili.
Henriksen, sem er á 25. aldursári, hefur áður leikið hér á landi, með Aftureldingu í næstefstu deild sumarið 2021, þegar liðið vann sér inn sæti í Bestu deildinni með því að hafna í öðru sæti.
Hún lék þá alls 19 leiki í deildinni og skoraði eitt mark ásamt því að leika einn bikarleik.
Henriksen fær leikheimild á morgun og verður því klár í slaginn með Stólunum í fyrstu umferð Bestu deildarinnar eftir slétta viku, heimaleik Tindastóls gegn Keflavík á Sauðárkróksvelli.