Nýsjálenska landsliðskonan Betsy Hassett er komin til liðs við Stjörnuna á ný eftir að hafa leikið með Wellington Phoenix í heimalandi sínu í vetur.
Betsy hefur spilað með Stjörnunni undanfarin þrjú ár og áður með KR-ingum í þrjú ár en hún er með leikjahæstu landsliðskonum Nýja-Sjálands með 143 landsleiki og lék einmitt gegn Íslandi fyrr í þessum mánuði.
Betsy hefur spilað 151 leik í íslensku úrvalsdeildinni og skorað 27 mörk en hún er á leið með nýsjálenska liðinu í lokakeppni heimsmeistaramótsins í sumar þar sem það er í gestgjafahlutverki ásamt Ástralíu.