Piltalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, mætir Grikklandi, Noregi og Spáni í lokakeppni Evrópumótsins á Möltu í sumar.
Dregið var í Valletta á Möltu rétt í þessu og Ísland er í B-riðli ásamt þessum þremur þjóðum en í A-riðlinum eru Malta, Portúgal, Pólland og Ítalía.
Þessar átta þjóðir leika um Evrópumeistaratitilinn dagana 3. til 16. júlí í sumar en Ísland hefur aldrei áður náð svona langt í þessum aldursflokki hjá körlum.
Stúlknalandsliðið á sama aldri, U19, er líka komið í átta liða úrslit og leikur í Belgíu í sumar en þar verður dregið í næstu viku.