„Ég er spenntur fyrir þessari áskorun. Ég hef hitt fólk og fundið fyrir því að það er mikill vilji til þess að gera vel, það er góð tilfinning fyrir þjálfara. Ég veit að þetta var einróma ákvörðun hjá stjórninni, þau sögðu mér það.
Það er mér mikilvægt því þá veit ég að allir styðja við bakið á mér,“ sagði Åge Hareide, nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið að loknum sínum fyrsta blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.
„Fyrir mér er ávallt spennandi að mæta á nýjan stað en ég þekki til Íslands, ég veit hverju liðinu hefur áorkað og þekki nokkra af leikmönnunum. Ég er ánægður með að vera kominn hingað og hlakka til að hefjast handa,“ hélt hann áfram.
Hareide sagði ráðningarferlið ekki hafa tekið langan tíma.
„Það tók mjög fljótt af. Þau tjáðu mér að þau hefðu verið í þjálfaraleit en ég held að þau hafi mjög fljótlega ákveðið að ráða mig. Þegar mér var boðið starfið var það mjög hvetjandi fyrir mig til að koma mér af stað, þannig að ég flaug hingað þegar í stað.“
Samningur hans gildir fram yfir EM 2024 í Þýskalandi, komist Ísland þangað. „Samningurinn er settur þannig upp að ef við komumst á EM þá rennur hann út í júní. Við myndum þá þurfa að ræða saman að nýju eftir það.
Ég myndi segja að ef okkur tekst að ná árangri væri það einungis eðlilegt að líta einnig til næstu undankeppni, það væri alveg sjálfsagt. En aðalatriðið núna er að komast á EM, það er mitt markmið, og svo þyrftum við að ræða framhaldið við stjórnina,“ útskýrði Hareide.
Norðmaðurinn er 69 ára gamall og hefur komið víða við á löngum ferli. Hann hefur meðal annars stýrt karlaliðum Helsingborg og Malmö til sænskra meistaratitla, Rosenborg til norska meistaratitilsins og Bröndby til danska meistaratitilsins, auk þess að þjálfa karlalandslið Danmerkur og Noregs.
Viðtalið við Hareide má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.