Gylfi Þór Sigurðsson er mættur til Íslands á ný eftir tæplega tveggja ára fjarveru vegna farbanns en hann var fastur á Englandi vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Mál hans var látið niður falla síðastliðinn föstudag.
Þetta herma heimildir fótbolta.net.
Gylfi var handtekinn í júlí árið 2021 og var laus gegn tryggingu, allt þar til málið var látið niður falla síðastliðinn föstudag. Alls liðu 637 dagar frá því hann var handtekinn og þar til málið var loks látið niður falla. Gylfi var að minnsta kosti sleppt gegn tryggingu sjö sinnum, á meðan málinu var frestað.
Nú, þegar hann má loks ferðast aftur, er hann mættur til Íslands en samkvæmt fótbolta.net kom hann til landsins í gær.
Gylfi hefur ekki enn tjáð sig um málið en í grein The Athletic í gær kemur fram að nánir fjölskyldumeðlimir Gylfa séu að íhuga að senda frá sér yfirlýsingu, til að skýra hans hlið.