HK er komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir öruggan 5:0-heimasigur á KFG í Kórnum í kvöld. HK leikur í efstu deild og KFG í 2. deild.
Atli Þór Jónasson var í stuði í fyrri hálfleik og hann skoraði tvö fyrstu mörkin á 6. og 45. mínútu. Ívar Orri Gissurarson bætti við þriðja markinu á 71. mínútu og Hassan Jalloh gerði tvö mörk á lokakaflanum.
Grótta úr 1. deild lenti í miklum vandræðum með KH úr 4. deild, en lokatölur urðu 4:3, Gróttu í vil.
Luis Rodríguez kom KH yfir á 8. mínútu, en Gabríel Hrannar Eyjólfsson jafnaði úr víti á 38. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.
Patrik Orri Pétursson kom Gróttu aftur yfir á 56. mínútu, en Luis Rodríguez jafnaði aftur, nú á 59. mínútu.
Tómas Johannessen kom Gróttu yfir í þriðja sinn á 62. mínútu og Sigurður Steinar Björnsson breytti stöðunni í 4:2 á 86. mínútu. Danny Tobar Valencia lagaði stöðuna fyrir KH í uppbótartíma.