Leikur Íslandsmeistara Breiðabliks og Fram í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu mun fara fram á Fylkisvelli í Árbæ.
Á heimavelli Fylkis er gervigras líkt og á Kópavogsvelli, heimavelli Blika, en leikurinn getur hins vegar ekki farið fram í Kópavogi vegna framkvæmda á vellinum í næstu viku.
Áður en leikur Breiðabliks og Fram fer fram næstkomandi föstudagskvöld fer þriðja umferð deildarinnar fram á sunnudag og mánudag.
Blikar heimsækja ÍBV til Vestmannaeyja og Fram fær Val í heimsókn í Úlfarsárdal. Báðir leikirnir fara fram á sunnudag.