Nýliðunum er spáð falli

Nýliðum FH, sigurvegurum 1. deildarinnar á síðasta tímabili, er spáð …
Nýliðum FH, sigurvegurum 1. deildarinnar á síðasta tímabili, er spáð falli úr Bestu deildinni. Ljósmynd/Jóhann Helgi

ÍBV, Keflavík, Tindastóll og FH verða þau fjögur lið sem enda í neðstu sætum Bestu deildar kvenna í fótbolta á komandi keppnistímabili. Þau munu því leika í neðri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt í tvennt á lokasprettinum.

Þetta er niðurstaðan í hinni árlegu spá Árvakurs um lokastöðu Bestu deildar kvenna þar sem 20 manns tóku þátt, starfsfólk Morgunblaðsins, mbl.is og K100 ásamt lausapennum og fréttariturum sem fjalla um leiki deildarinnar.

ÍBV fékk 83 stig í sjöunda sæti í spánni, Keflavík fékk 60 stig í áttunda sætinu, Tindastóll fékk 38 stig í níunda sætinu og FH 36 stig í tíunda sætinu.

Á síðasta tímabili endaði ÍBV í sjötta sæti Bestu deildarinnar og Keflavík í áttunda sæti en FH varð meistari 1. deildar og Tindastóll hafnaði í öðru sæti.

Nýliðunum tveimur er því spáð falli sem er næsta algengt en Tindastóll lék áður í deildinni árið 2021 og FH var síðast í deildinni árið 2020.

Tvö af þessum liðum, Tindastóll og Keflavík, mætast strax í fyrstu umferðinni á Sauðárkróki næsta þriðjudagskvöld. Miðað við spána ætti sá leikur að hafa mikið vægi í fallbaráttu deildarinnar því þau eru í áttunda og níunda sæti.

ÍBV byrjar sama kvöld á heimaleik gegn Selfossi en FH mætir Þrótti á útivelli á miðvikudagskvöldið.

Nánari umfjöllun um liðin fjögur má lesa á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert