Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, var svekktur eftir tap gegn Val á heimavelli, 3:1, í þriðju umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
„Þetta er bara svekkjandi, sérstaklega ef maður horfir á frammistöðuna í leiknum. Við höfðum töluverða yfirburði, sérstaklega í seinni hálfleik. Við fáum fullt af færum, brennum af víti og þeir bjarga tvisvar á línu og í aðdraganda marksins þegar þeir komast yfir bjarga þeir á línu eftir hornspyrnu hjá okkur. Þeir ná að vinna boltann í tæklingu fyrir utan teiginn og komast svo tveir á móti einum. Þetta var kannski klaufaleg staða sem við komum okkur í.
Frammistaðan var bara góð en þú færð ekkert fyrir það. Þetta gengur víst út á að skora fleiri mörk en andstæðingurinn. Við sköpuðum okkur færi og vorum að komast í góðar stöður. Við vorum grimmir og ákveðnir og ef ég horfi á frammistöðuna er ég mjög ánægður með mitt lið. Ef við höldum svona áfram munu stigin detta í hús, það er engin spurning um það en við fáum ekkert út úr þessum leik sem er svekkjandi.“
Benjamín Jónsson stóð í marki Fram í dag í fjarveru Ólafs Íshólm Ólafssonar og leysti verkefnið með stakri prýði þrátt fyrir að hafa þurft að sækja boltann þrisvar í netið. Var þetta fyrsti alvöru meistaraflokksleikur Benjamíns en hann á einungis tvo Lengjubikarsleiki að baki.
„Þetta er bara mjög flottur strákur og framtíðarleikmaður, ekki nokkur spurning. Hann gat lítið gert í þessum mörkum sem við fengum á okkur, þau komu öll úr mjög opnum færum en strákurinn er virkilega flottur. Það var gaman að sjá hann taka þennan leik og standa sig eins og hann gerði.“
Ólafur Íshólm og Delphin Tshiembe voru ekki með Fram í leiknum vegna meiðsla. Delphin fékk höfuðhögg í síðasta leik liðsins gegn HK.
„Þeir eru báðir líklegir í næsta leik en vikan verður aðeins að skera úr um það. Ólafur lenti í einhverri smávægilegri tognun og við vildum ekkert vera að taka neina sénsa með það. Þetta gerðist bara á æfingu í gær og við vildum ekki taka séns á lengri fjarveru.
Við þurfum svo bara að fara varlega með Delphin eftir svona meiðsli eins og hann lenti í. Við þurfum svo bara að sjá hversu langt hann verður kominn á föstudaginn.“
Fram komst yfir í leiknum en Valur jafnaði metin úr vítaspyrnu eftir afar umdeildan dóm. Guðmundur Andri Tryggvason féll þá í teignum og voru Framarar á vellinum allt annað en sáttir.
„Ég sá þetta og við erum búnir að heyra í öllum þeim sem komu að þessu, bæði Valsara og okkar manni. Það var aldrei snerting og aldrei víti. En við breytum því ekkert úr þessu. Guðmundur Andri sagði að þetta hefði aldrei verið víti en honum fannst að hann hefði átt að fá víti fyrr í leiknum svo kannski jafnaðist það bara út.
En þetta var ekki víti og eins og ég sagði við fjórða dómarann þá þurfa þeir að dæma ansi margar vítaspyrnur í hverjum leik ef þetta er víti. En þeir stjórna þessu og ekkert við þá að sakast í leiknum almennt. Auðvitað detta svona dómar annað slagið, þeir þurfa að taka ákvörðun á sekúndubrotinu og það getur bara verið erfitt. Guðmundur Andri var sannfærandi þegar hann datt.“
Jón segist þó ekki vilja fá VAR-myndbandsdómgæslu í íslenska boltann.
„Nei ég er ekkert mikill VAR aðdáandi. Þetta er bara hluti af leiknum. Alveg eins og við gerum mistök, þjálfarar og leikmenn, þá verða dómarar að fá að gera mistök. Þegar við jöfnum út alla leiki ársins held ég að það verði alltaf eitthvað jafnvægi í þeim dómum sem falla með þér og á móti þér. Dómararnir eru bara flottir heilt yfir.“