Höfum spilað á mun verri völlum

Oliver Sigurjónsson, lengst til hægri, í leiknum í dag.
Oliver Sigurjónsson, lengst til hægri, í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Íslandsmeistarar Breiðabliks heimsóttu ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn var jafn en endaði með sigri heimamanna í ÍBV, 2:1. Sigurmarkið kom úr vítaspyrnu á loka andartökum leiksins.

Oliver Sigurjónsson stóð vaktina á miðju Blika í dag og var sammála því að leikurinn hafi verið jafn.

„Þetta var skrýtinn leikur. Lítil ákefð, ekkert mikið hlaupið og frekar mikil stöðubarátta. Það var eiginlega ekkert að gerast í fyrri hálfleik nema kannski þessi mörk, og skalli eftir hornspyrnu hjá þeim. Ég veit ekki alveg hvernig þessi fótboltaleikur var. Þetta var bara einhver stöðubarátta og svo var þetta örugglega að fara detta öðru hvoru megin,“ sagði Oliver.

Eyjamenn komust yfir en Blikar jöfnuðu rétt undir lok fyrri hálfleiks. Oliver var svekktur að geta ekki nýtt meðbyrinn betur inn í seinni hálfleik.

„Mér fannst við aðeins hafa yfirhöndina í byrjun síðari hálfleiks en ekkert áberandi. Þetta var jafn leikur. Við förum ekki nógu vel með möguleikana okkar og ÍBV fékk líka fullt af möguleikum. Það vantaði kannski aðeins undir lokin hjá okkur.

Síðustu 20 bættist aðeins í vindinn og við leystum bara illa úr því. Við fórum að sparka boltanum svolítið mikið upp í loftið og ekki að ná stjórn á honum. Þetta varð svolítið mikið svona hopp og skopp. Svekkjandi að geta ekki nýtt meðbyrinn sem við fengum undir lok fyrri hálfleiks til að hafa meiri kraft í seinni hálfleik.“

Þetta var fyrsti leikur tímabilsins á Hásteinsvelli og var völlurinn ekki eins og hann er þegar hann er upp á sitt besta. Sár voru á víð og dreif um völlinn og þá helst við hliðarlínuna hjá varamannaskýlunum. Blikar spila á gervigrasi en Oliver gaf lítið fyrir aðstæðurnar engu að síður.

„Nei, við höfum spilað á mun verri völlum. Þetta var bara fínn völlur. Það verður hent í okkur fullt af áskorunum og mótlæti. Það var líka þannig í fyrra. Þannig við þurfum bara að halda hausnum uppi og ekki vera að pæla í einhverjum utanaðkomandi aðstæðum, sama hvort það er dómarinn eða grasið. Við þurfum bara að halda áfram. Það er bara eina svarið.

Eftir leikinn eru Blikar með þrjú stig af níu mögulegum og sitja í sjöunda sæti. Það er væntanlega mikið svekkelsi með árangurinn þessar fyrstu umferðir í græna hluta Kópavogs. Oliver var fullmeðvitaður um stöðu mála en var þó bjartsýnn á að liðið geti snúið þessu við fljótlega.

„Það er bara sex stigum of lítið. Auðvitað hefðum við viljað byrja betur. Ef þú ætlar að verða Íslandsmeistari verður þú að safna eins mörgum stigum og þú vilt, og það er auðvitað markmiðið. Þetta er bara ekki nógu gott. Við getum ekkert annað en farið á æfingu, fundi og safnað okkur saman og gefið hvorum öðrum orku, því við erum saman í þessu. Það munu koma stig í hús,“ sagði Oliver Sigurjónsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert