ÍBV tók á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í Bestu deild karla á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í dag. Leikurinn endaði með 2:1 sigri heimamanna en sigurmarkið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Eyjamenn voru betri sóknarlega í fyrri hálfleik og áttu nokkur góð marktækifæri. Eitt slíkt kom eftir hornspyrnu á 10. mínútu þegar Blikar vörðu skalla Tómasar Bent á marklínu.
Ekki löngu síðar varði Anton, markvörður Blikar, meistaralega frá Hermanni Þór sem hitti svo boltann ekki stuttu síðar þegar boltinn barst honum inni í teig.
Á 38. mínútu áttu Eyjamenn hornspyrnu sem Blikar komu frá. Boltinn barst hinsvegar til Felix á vinstri vængnum sem kom með stórhættulega fyrirgjöf. Hún barst til Sverris Páls sem átti skot á markið sem Anton Ari varði virkilega vel. Boltinn endaði hinsvegar hjá Halldóri Jóni í vænlegri stöðu. Hann kláraði færið vel í markið hjá Blikum og Eyjamenn komnir yfir, 1:0.
Blikar sóttu hinsvegar í sig veðrið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og tókst að jafna í uppbótartíma. Eyjamenn sofnuðu þá á verðinum þegar Breiðabliksmenn fengu aukaspyrnu nálægt hliðarlínunni á hægri kanti. Viktor Karl fékk boltann í kanalinum og átti auðvelda fyrirgjöf á Höskuld sem skallaði boltann auðveldlega og pressulaust framhjá Jóni Kristni í marki Eyjamanna, 1:1.
Blikum mistókst að nýta sér meðbyrinn í síðari hálfleik og var frekar jafnt með liðinum út leikinn og lítið um góð marktækifæri. Þegar leið á leikinn fór aðeins að hitna í kolunum og er óhætt að segja að Eyjamenn hafi verið heppnir að klára leikinn með 11 leikmenn inni á vellinum.
Þegar um 10 mínútur lifðu leiks fékk Breki Ómarsson, varamaður ÍBV, boltann í dauðafæri en skóflaði boltanum yfir markið. Boltinn hafði borist frá Felix Erni, leikmanni ÍBV, en hann virtist vera á leiðinni inn í markið þegar Breki tók boltann.
Í uppbótartíma dró hinsvegar heldur betur til tíðinda. Sverrir Páll, sóknarmaður ÍBV, fékk boltann út við hlið vítateigs Breiðabliksmanna. Hann freistaði þess að gefa boltann fyrir og Viktor Örn, varnarmaður Breiðabliks, henti sér fyrir boltann. Hann fékk boltann hinsvegar í höndina og Jóhann Ingi dómari benti á punktinn eftir örlitla umhugsun. Eiður Aron, fyrirliði Eyjamanna, fór á punktinn og skoraði af öryggi. 2:1 fyrir heimamönnum í ÍBV og aðeins mínúta eða tvær eftir af leiknum.
Breiðabliksmenn freistuðu þess auðvitað að jafna og settu nánast allt liðið sitt upp völlinn. Allt kom þó fyrir ekki og Eyjamenn héldu út að lokaflauti Jóhanns Inga.
Fyrstu stig ÍBV í Bestu deild karla 2023 staðreynd og það gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks, sem eru aðeins með 3 stig eftir 3 leiki. Fyrir lokaleik dagsins sitja Eyjamenn í níunda sæti og Breiðablik í því sjöunda.