Þriðja umferð Bestu-deildar karla í fótbolta hófst í dag með tveimur leikjum. Í öðrum þeirra mættust KA og Keflavík á Greifavellinum á Akureyri. KA spilaði á heimavelli þriðja leikinn í röð en Akureyringar voru með fjögur stig fyrir leik á meðan Keflavík var með þrjú.
Skemmst er frá því að segja að leikurinn var markalaus og var fátt markvert sem gerðist.
Ekki er hægt að segja um fyrri hálfleikinn í dag að hann hafi verið skemmtilegur. Fátt var um fína drætti og lítið um færi. KA-menn voru töluvert meira með boltann, án þess að skapa sér almennileg færi. Þeir áttu eitt og eitt skot, sem öll stoppuðu í varnarmúr Keflvíkinga. Gestirnir áttu í raun tvö bestu færin en Steinþór í marki KA var mjög öruggur í báðum tilvikum.
Það merkilegasta sem gerðist var í raun þegar Sveinn Margeir slapp í gegn um vörn Keflvíkinga og var felldur af Mathias Rosenörn markverði. Var það klárt brot en Sveinn Margeir var flaggaður rangstæður og fékk því Keflavík óbeina aukaspyrnu. Staðan var 0:0 í hálfleik og klárt mál að liðin myndu spýta í lófana fyrir átök þess síðari.
Eiginlega má segja að seinni hálfleikurinn hafi verið eins og sá fyrri en KA fékk þó sín færi. Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk þau nokkur en næst komst hann að skora þegar hann átti skot í markslána. Að auki fékk hann tvö skallafæri en allt kom fyrir ekki.
Leikurinn fjaraði svo út án marka og bæði lið fengu því eitt stig í sarpinn.
KA-menn hljóta að naga sig í handabökin eftir þennan leik. Þeir mættu bæði þreyttum og vængbrotnum Keflvíkingum á sínum heimavelli, þar sem þeir hafa yfirleitt haft góðan byr í seglin. Leikmenn KA voru langt frá sínu besta í þessum leik enda þjálfarinn ekki kátur og lét hann hafa eftir sér að KA gæti bara prísað sig sæla að hafa tekið stig úr leiknum. Steinþór Már Auðunsson var eini leikmaður KA sem virkilega sýndi hvað í honum býr en hann þurfti að verja tvisvar í fyrri hálfleiknum en var að öðru leyti öruggur í öllum sínum aðgerðum.
Hrósa verður leikmönnum Keflavíkur. Þeir voru í erfiðum 120 mínútna bikarleik á miðvikudaginn og komu norður til að berjast fyrir a.m.k. einu stigi. Þeir voru mjög þéttir allan leikinn, spiluðu af skynsemi og hefðu allt eins getað stolið sigri.