Svona er þetta bara

Sverrir Páll Hjaltested, númer níu, fagnar fyrra marki ÍBV ásamt …
Sverrir Páll Hjaltested, númer níu, fagnar fyrra marki ÍBV ásamt liðsfélögum. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks á Hásteinsvelli í dag í Bestu deild karla í knattspyrnu. Leikurinn endaði með sigri heimamanna, 2:1, en sigurmarkið kom í uppbótartíma af vítapunktinum.

Sverrir Páll Hjaltested, sóknarmaður ÍBV, kom frá Val í vetur og spilaði allan leikinn gegn Íslandsmeisturunum í dag. Hann stóð sig vel og átti stóran þátt í báðum mörkum Eyjamanna. Hann var kampakátur með stigin þrjú og baráttuna í sínu liði.

„Erfiðar aðstæður og við vorum bara grimmari. Þetta var bara 50/50 og hefði getað dottið báðum megin. Við vorum bara grimmari,“ sagði Sverrir Páll.

Eins og áður sagði átti Sverrir Páll stóran þátt í báðum mörkum Eyjamanna. Í fyrra markinu var það skot hans sem Anton, markmaður Blika, varði til Halldórs Jóns sem skoraði örugglega. Í seinna markinu var það Sverrir sem átti fyrirgjöfina sem fór í hönd Viktors Arnar, varnarmanns Blika, inni í teig Breiðabliks. Hann var sáttur með sinn hlut í mörkunum en fyrst og fremst ánægður með sigurinn á sterku liði Breiðabliks.

„Ég er náttúrulega bara fyrst og fremst ánægður að vinna leikinn en það er extra sætt að fá að vera með stoðsendingu í báðum mörkunum.“

Aðstæðurnar á Hásteinsvelli voru ekki upp á sitt besta í dag, en völlurinn er ekki alveg klár fyrir mótið, þrátt fyrir að vera orðinn leikfær eins og kostur er. Blaðamaður ýjaði að því að aðstæðurnar hefðu hentað heimamönnum betur í þessum leik, en Sverrir Páll gaf lítið fyrir það.

„Hentaði okkur og ekki skilurðu? Þetta var bara erfitt fyrir bæði liðin. Svona er þetta bara.“

Framherjinn kom til Eyjamanna frá Val en spilaði með Kórdrengjum í fyrstu deild síðasta sumar. Hann virðist smella vel inn í leik Eyjamanna.

„Þetta lítur bara vel út finnst mér og gengur bara mjög vel. Það er bara upp með hausinn og halda áfram,“ sagði Sverrir Páll sáttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert