Valur vann góðan sigur á Fram á Framvelli í Úlfarsárdal í 3. umferð Bestu deildar karla í kvöld, 3:1.
Með sigrinum fer Valur upp í annað sæti deildarinnar en liðið er með sex stig eftir þrjár umferðir. Fram er í 10. sæti með tvö stig.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn. Valur var meira með boltann en skapaði sér þó ekki hættulegri færi en Fram. Mikið var um aukaspyrnur sem hafði talsverð áhrif á flæði leiksins. Á 34. mínútu komust heimamenn yfir en Magnús Þórðarson gerði þá mjög vel vinstra megin, fór upp að endamörkum og gaf fyrir þar sem Fred kom á fleygiferð og setti boltann í netið af stuttu færi.
Valur jafnaði metin tæpum tíu mínútum síðar. Guðmundur Andri Tryggvason var þá með boltann í teignum og féll eftir snertingu frá Orra Sigurjónssyni. Snertingin var ekki mikil og Guðmundur fór auðveldlega niður en mögulega var hægt að réttlæta vítaspyrnu. Úr vítinu skoraði Andri Rúnar Bjarnason af miklu öryggi og jafnaði metin í 1:1.
Seinni hálfleikurinn fór nokkuð rólega af stað en á 57. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu. Birkir Már Sævarsson braut þá á Guðmundi Magnússyni innan teigs og Helgi Mikael benti á punktinn. Frederik Schram hins vegar varði vítaspyrnuna sem Guðmundur tók sjálfur, en hún var nokkuð slök í góðri hæð fyrir Frederik.
Valur komst svo yfir á 74. mínútu. Þórir Guðjónsson, leikmaður Fram átti þá skalla að marki eftir horn sem Aron Jóhannsson hreinsaði af marklínu. Valur geystist upp í skyndisókn þar sem Orri Hrafn Kjartansson setti Adam Ægi Pálsson í gegn. Hann lagði boltann til hliðar á varamanninn Tryggva Hrafn Haraldsson sem kláraði færið af mikilli yfirvegun.
Skömmu síðar var tvíeykið Adam Ægir og Tryggvi Hrafn svo aftur á ferðinni. Adam gerði þá frábærlega vinstra megin í teignum, sneri skemmtilega með boltann og galopnaði vörn Fram áður en hann setti boltann á Tryggva sem skoraði í svo gott sem opið mark.
Eftir þriðja markið sigldi Valur nokkuð þægilegum sigri í höfn en Framarar náðu lítið að ógna marki Vals það sem eftir lifði leiks.