„Það kemur mér ekki á óvart. Við erum búnar að missa marga stóra pósta úr okkar herbúðum,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, landsliðskona og fyrirliði Vals, í samtali við mbl.is. Val er spáð þriðja sæti í Bestu deildinni af fyrirliðum, forráðamönnum og þjálfurum, þrátt fyrir að vera Íslandsmeistari síðustu tveggja ára.
„Við erum að fá leikmenn inn sem eru yngri og óskrifaðra blað en það sem við höfum haft áður. Það eru samt frábærir leikmenn og við erum með mjög spennandi lið og munum koma á óvart,“ sagði Elísa.
Markvörðurinn Sandra Sigurðardóttir, liðsfélagi Elísu til margra ára með Val og landsliðinu, lagði hanskana á hilluna á dögunum. Hin 18 ára gamla Fanney Inga Birkisdóttir verður aðalmarkvörður í sumar, en hún hefur gert góða hluti með U19 ára landsliðinu undanfarna mánuði.
„Það kom mér ekki endilega á óvart að Sandra hætti. Sandra er frábær markmaður, sem er búin að gera allt á sínum ferli. Hún stóð sig frábærlega á Evrópumótinu síðasta sumar og líka með okkur í Val undanfarin ár. Maður skilur þessa ákvörðun vel. Þetta er frábært tækifæri fyrir Fanneyju að grípa boltann og stíga inn í þetta hlutverk, sem ég veit hún mun gera vel.“
Elísa hefur verið í baráttu innan og utan vallar á fyrstu mánuðum ársins, því hún hefur lýst yfir vonbrigðum með vinnubrögð ÍTF, ásamt öðrum fyrirliðum deildarinnar, þar sem sýnileiki kvennaknattspyrnunnar á Íslandi er lítill, í samanburði við karlaknattspyrnu.
„Mér finnst að skylda fyrir mig að standa upp fyrir framtíðar knattspyrnufólki. Hvort sem það eru ungar stelpur eða ungir strákar. Þetta er öðruvísi undirbúningur en maður er vanur, en engu að síður mikilvægt málefni sem við höfum verið að berjast fyrir. Ég viss um að við séum öll í sama liðinu núna og að róa í sömu átt,“ sagði hún.
Valur mátti þola tap í vítakeppni fyrir Stjörnunni í Meistarakeppni KSÍ á mánudaginn var. Urðu lokatölur 0:0 og var farið beint vítakeppni. Þrátt fyrir tapið er Elísa sátt með stöðuna á Valsliðinu.
„Ég var ótrúlega ánægð með frammistöðuna í meistarar meistaranna. Varnarfærslurnar voru góðar og þegar þær eru góðar er maður kominn ansi langt í þróun liðsins. Sóknarleikurinn er eitthvað sem kemur með fleiri spiluðum mínútum. Ég er ánægð með standið á liðinu.“
Í fyrsta skipti verður deildinni skipt í tvennt eftir tvær umferðir og leika efstu fimm og neðstu fimm liðin eina umferð til viðbótar innbyrðis í lok tímabils.
„Það verður gaman að prófa nýja fyrirkomulagið. Maður sá þetta hjá strákunum í fyrra. Það var ekki mikil spenna þá, en vonandi verður spennan meiri í ár, karla- og kvennamegin. Við erum öll að berjast fyrir því að bæta íslenskan fótbolta og við gerum það vonandi með því að lengja mótið og fá fleiri góða leiki. Þannig eflumst við. Þetta verður spennandi að sjá, því núna reynir meira á breidd hópanna,“ sagði Elísa.
Fyrsti leikur Vals er gegn Breiðabliki á heimavelli á þriðjudaginn kemur.