Ásgeir Eyþórsson var valinn maður leiksins á Fylkisvelli í sigri á FH, 4:2, í þriðju umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Ásgeir skoraði þriðja mark Fylkis seint í leiknum og kom liðinu yfir.
„Þetta er bara geggjað. Við vissum að við þyrftum aðeins að svara fyrir fyrstu tvo leikina, við vorum ekki alveg nógu sáttir við spilamennskuna í þeim. Það var gott að ná að svara vel í dag, mér fannst meiri kraftur í okkur og áttum sigurinn skilið.“
Fylkir komst í 2:0 snemma leiks en FH jafnaði í seinni hálfleik. Fylkismenn virtust þó eiga meira á tankinum á lokamínútunum og bættu við tveimur mörkum.
„Það var auðvitað svekkjandi að fá á sig tvö mörk, sérstaklega því þau voru bæði úr föstum leikatriðum, svona hálf klaufaleg mörk. Við höfðum alltaf trú á þessu og það var hugur í mönnum að ná í fyrsta sigurinn, svo þetta var bara frábært.“
Eins og áður sagði skoraði Ásgeir þriðja mark Fylkis en hann stangaði boltann þá í netið eftir hornspyrnu þrátt fyrir að vera með stærðarinnar skurð og umbúðir á hausnum.
„Það er í lagi með mig, mig grunar að ég þurfi að fara upp á slysó og láta sauma aðeins en ég spila betur með skurð, það er bara þannig. Ég skoraði með skurðinum!“
Fylkismenn eru með þrjú stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar en Ásgeir segir liðið geta byggt ofan á sigurinn í kvöld.
„Algjörlega. Maður fattaði það hvað það er leiðinlegt að tapa leikjum svo við verðum að halda svona áfram.“
Óskar Borgþórsson kom inná sem varamaður hjá Fylki í leiknum, lagði upp þriðja markið fyrir Ásgeir og skoraði svo fjórða markið sjálfur. Hann var einstaklega vinsæll meðal ungra stuðningsmanna Fylkis í stúkunni.
„Hann er allt of vinsæll hjá ungu kynslóðinni, ég er ekki með skýringar á því. Kannski af því að hann er svo myndarlegur.“