Enn kemur fyrsta mark ársins í Eyjum

Holly O'Neill, númer 10, kemur ÍBV yfir í leiknum í …
Holly O'Neill, númer 10, kemur ÍBV yfir í leiknum í kvöld með fyrsta marki Bestu deildar kvenna 2023. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kanadíska knattspyrnukonan Holly O'Neill skoraði fyrsta mark Bestu deildar kvenna í fótbolta árið 2023 en hún kom ÍBV yfir gegn Selfossi á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.

Leikur liðanna hófst klukkan 18, á sama tíma og leikur Tindastóls og Keflavíkur á Sauðárkróki, og þar með voru mestar líkur á að fyrsta markið kæmi á öðrum hvorum staðnum.

Það var O'Neill sem braut ísinn í fyrsta deildarleik sínum með ÍBV þegar hún skoraði á 28. mínútu gegn Selfossi, 1:0.

Þetta er í þriðja árið í röð sem fyrsta mark deildarinnar er skorað af leikmanni ÍBV á Hásteinsvelli. Þóra Björg Stefánsdóttir skoraði fyrir ÍBV gegn Stjörnunni í fyrsta leiknum í fyrra og árið 2021 var það Delaney Brie Pridham sem kom ÍBV yfir í leik gegn Þór/KA.

Í hvorugt skiptið dugði fyrsta markið ÍBV til sigurs því leikurinn við Stjörnuna í fyrra endaði 1:1 og ÍBV tapaði leiknum fyrir Þór/KA, 1:2, fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert