Forráðamenn FH hafa samþykkt kauptilboð ÍBV í knattspyrnumanninn Oliver Heiðarsson.
Það er 433.is sem greinir frá þessu en Daníel Geir Moritz, formaður knattspyrnuráðs ÍBV, staðfesti þetta í samtali við fótbolta.net í dag.
Oliver, sem er 22 ára gamall, er kantmaður að upplagi en hann gekk til liðs við FH frá Þrótti úr Reykjavík árið 2021.
Alls á hann að baki 40 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað fimm mörk en hann hefur komið við sögu í tveimur leikjum með Hafnfirðingum á tímabilinu.
ÍBV er í 11. sæti Bestu deildarinnar með þrjú stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar en liðið vann frækinn sigur gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í síðustu umferð.