ÍBV sigraði Selfoss, 1:0, í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld.
Það var heldur kuldalegt á að líta í kvöld þegar að ÍBV tók á móti Selfossi í fyrsta leik sumarsins í Bestu deild kvenna. Vindasamt var á vellinum og hafði það töluverð áhrif á leikinn.
Það voru Selfyssingar sem byrjuðu með vindi og var boltinn að mestu á vallarhelmingi ÍBV fyrri part leiks. Selfosskonur voru líklegar að setja boltann inn nokkrum sinnum og sýndu ágætis takta en náðu ekki að klára sitt.
Það var svo á 28. mínútu sem að Holly O'Neill setti mark sitt á leikinn með fyrsta marki sumarsins í Bestu deild kvenna eftir flott uppspil Eyjakvenna. Þær voru heldur óvænt komnar yfir, 1:0.
Það var ekki nema mínútu síðar sem Holly setti aftur mark sitt á leikinn þegar hún braut á Jimenu López inni í vítateig síns liðs. Soffía Kristinsdóttir, dómari leiksins, var í engum vafa og benti á vítapunktinn. Jimena fór sjálf á punktinn en skaut töluvert fram hjá markinu. Eyjakonur voru heppnar að halda forystunni.
Bæði lið sýndu styrk sinn í lok fyrri hálfleiks og sóttu að marki andstæðingsins. Eyjakonur áttu flott uppspil sem endaði með marki hjá Kristínu Ernu Sigurlásdóttur en hún var fyrir innan þegar sendingin kom og aðstoðardómari flaggaði réttilega rangstöðu.
Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og héldu Eyjakonur til búningsklefa með eins marka forystu.
Eins og ÍBV í fyrri hálfleik áttu Selfyssingar erfitt með að koma boltanum yfir af sínum vallarhelmingi í byrjun seinni hálfleiks. Eyjakonur voru töluvert öflugri í að setja boltann á markið og nýta sér vindinn en Idun Jorgensen stóð sína plikt í marki Selfyssinga. Selfoss átti líka nokkur fín færi í seinni hálfleik en inn vildi boltinn ekki og enduðu leikar 1:0.
Bæði lið sýndu flotta takta í krefjandi aðstæðum og sýndu hörkubaráttu í þessum Suðurlandsslag. Þetta datt með ÍBV-konum í þetta skiptið og taka þær með sér þrjú stig og fá að vera á toppi deildarinnar í a.m.k. einhverja klukkutíma.