Knattspyrnumaðurinn Þorsteinn Már Ragnarsson er genginn til liðs við Víking í Ólafsvík á nýjan leik en hann lagði skóna á hilluna síðasta haust eftir farsælan feril í efstu deild.
Þorsteinn hóf meistaraflokksferilinn með Snæfelli í 3. deild árið 2006 en lék síðan með Ólafsvíkingum á árunum 2007 til 2011, fjögur tímabil í 1. deild og eitt í 2. deild.
Hann gekk til liðs við KR og lék þar árin 2012 til 2015 en var lánaður til Ólafsvíkinga hluta tímabilsins 2014.
Þegar Víkingur vann sér sæti í úrvalsdeildinni fór Þorsteinn á ný vestur og spilaði með liðinu þar árin 2016 og 2017. Eftir það lék hann með Stjörnunni frá árinu 2018 og fram á mitt tímabilið 2022 en lauk því með KR-ingum og tilkynnti í mótslok að hann hefði lagt skóna á hilluna.
Víkingur frá Ólafsvík leikur í 2. deild og fær mikinn styrk með Þorsteini sem á að baki 204 leiki í úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði 33 mörk, og þá á hann að baki alls 297 leiki í öllum deildum Íslandsmótsins.