Markalaust á Króknum

Hörð barátta við vítateig Tindastóls í leiknum á Sauðárkróki í …
Hörð barátta við vítateig Tindastóls í leiknum á Sauðárkróki í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Nýliðar Tindastóls og Keflavík gerðu markalaust jafntefli er liðin áttust við í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í kvöld.

Fyrri hálfleikur var fjörugur þar sem bæði lið fengu góð færi til þess að ná forystunni.

Þegar þessi færi fengust vantaði hins vegar ávallt örlitla ró hjá leikmönnum þar sem skotin fóru yfir eða fram hjá.

Besta færi fyrri hálfleiks fékk Hugrún Pálsdóttir, kantmaður Tindastóls, eftir rúmlega stundarfjórðungs leik. Vera Varis í marki Keflavíkur missti þá fyrirgjöf fyrir fætur Hugrúnar, sem náði skotinu undir pressu frá Varis en það fór yfir markið.

Besta færi Keflavíkur fékk svo Mikaela Nótt Pétursdóttir skömmu fyrir leikhlé þegar hornspyrna frá vinstri barst til hennar á fjærstönginni en skot Mikaelu Nóttar af stuttu færi fór yfir markið.

Í millitíðinni höfðu bæði Caroline Van Slambrouck hjá Keflavík og Hannah Jane Cade skotið rétt fram hjá mörkum andstæðinganna við vítateigslínurnar.

Markalaust var því í leikhléi.

Síðari hálfleikur var afskaplega bragðdaufur lengi framan af, svo vægt sé til orða tekið, og fékk hvorugt liðið svo mikið sem hálffæri.

Aftur lifnaði hins vegar yfir leiknum þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir.

Linli Tu kom sér í gott færi eftir góðan sprett á 80. mínútu en Monica Wilhelm í marki Tindastóls varði skot hennar úr vítateignum vel.

Skömmu síðar gerði Murielle Tiernan vel í að snúa á Mikaelu Nótt utarlega í vítateignum, náði góðu skoti en það fór rétt fram hjá markinu.

Varamaðurinn Melissa Garcia fékk svo góða fyrirgjöf frá Tiernan en náði ekki að teygja sig nægilega vel í boltann og skot hennar af stuttu færi fór því fram hjá.

Fleiri urðu færin ekki og niðurstaðan var því að lokum markalaust jafntefli.

Tindastóll 0:0 Keflavík opna loka
90. mín. Anita Lind Daníelsdóttir (Keflavík) á skot sem er varið +1 Skotið fyrir utan teig fer af varnarmanni og endar í fangi Wilhelm.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert