Árbæinga þyrstir í svona ævintýri

Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis.
Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi viðureign leggst mjög vel í mig,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, í samtali við mbl.is eftir að liðið dróst gegn KR í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í höfuðstöðvum KSÍ i Laugardal í dag.

„Þetta eru alltaf skemmtilegir leikir, milli Fylkis og KR, og það er mikil saga á bakvið þá líka þannig að ég er mjög spenntur að mæta þeim. Við mættum Sindra í 32-liða úrslitunum og þar kom fyrsti sigur tímabilsins, sem var alls ekki auðveldur.

Sá sigur gaf okkur hins vegar mikið og sigurinn gegn FH gaf okkur hrikalega mikið líka. Það er mjög jákvætt að vera kominn á blað því það getur orðið ansi þungt ef fyrsti sigurinn lætur bíða of lengi eftir sér,“ sagði Ragnar Bragi.

Allur Árbærinn mættur

Fylkir hefur tvívegis orðið bikarmeistari, 2001 og 2002, en liðið er nýliði í Bestu deildinni í ár.

„Það er alltaf verið að minna mann á þessa bikarsigra og Árbæinga þyrstir í svona ævintýri aftur. Það var auðvitað allur Árbærinn mættur á Laugardalsvöll árin 2001 og 2002 og það er alltaf ákveðin löngun til staðar innan klúbbsins að endurtaka þann leik,“ bætti Ragnar Bragi við í samtali við mbl.is.

Árbæingar fagna sigri í 1. deildinni síðasta sumar.
Árbæingar fagna sigri í 1. deildinni síðasta sumar. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert