HK hefur fengið framherjann Eyþór Aron Wöhler lánaðan frá nágrönnum sínum í Breiðabliki og styrkir með því sóknarlínu sína fyrir baráttuna í Bestu deild karla í fótbolta.
Eyþór, sem er 21 árs gamall, er uppalinn hjá Aftureldingu en hefur leikið með ÍA undanfarin tvö tímabil og var markahæsti leikmaður Skagamanna í Bestu deildinni í fyrra með níu mörk í 25 leikjum.
Hann hefur aðeins komið einu sinni við sögu sem varamaður hjá Blikum í þremur fyrstu umferðum deildarinnar en það var einmitt í leiknum gegn HK í fyrstu umferðinni.
Eyþór hefur leikið ellefu leiki með yngri landsliðum Íslands, einn þeirra með 21-árs landsliðinu.