Nýliðar FH halda áfram að styrkja sig fyrir átökin í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í sumar.
Tveir ungir og efnilegir leikmenn Breiðabliks, þær Margrét Brynja Kristinsdóttir og Harpa Helgadóttir, hafa skrifað undir lánssamninga við knattspyrnudeild FH.
Báðar eru þær fæddar árið 2006. Margrét Brynja fagnar 17 ára afmæli sínu í næstu viku og Harpa er orðin 17 ára.
Þrátt fyrir ungan aldur búa þær báðar yfir töluverðri leikreynslu með venslafélagi Breiðabliks, Augnabliki, þar sem þær hafa verið á láni undanfarin tímabil og leikið í næstefstu deild.
Margrét Brynja hefur þá leikið sjö leiki fyrir Blika í efstu deild.