Leikir Breiðabliks og KR í efstu deild karla í knattspyrnu hafa verið best sóttu leikir Íslandsmótsins undanfarin ár.
Þetta kom fram í skýrslu KSÍ og Deloitte um fjármál íslenskra knattspyrnuliða sem nær yfir tímabilið 2019 til 2022.
Alls mættu að meðaltali 1.522 áhorfendur á níu leiki liðanna á árunum 2019 til 2022 en það skekkir heildartölurnar talsvert að kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á mætingu á leiki liðanna í þrígang, það er árin 2020 og 2021.
Ef þessir þrír leikir eru teknir í burtu var meðaláhorfendafjöldinn 2.055 áhorfendur á leiki Breiðabliks og KR sem verður að teljast afar gott.
Kvennamegin eru það stórleikir Breiðabliks og Vals sem eru mest sóttir af áhorfendum en þar er meðal áhorfendafjöldinn 626 áhorfendur.
Ef leikirnir þrír, í kórónuveirufaraldrinum, eru teknir út úr reikningsdæminu þá er meðaláhorfendafjöldinn 738 áhorfendur.