Bítum í súra eplið og lærum af þessu

Hlynur Atli Magnússon fyrirliði Fram.
Hlynur Atli Magnússon fyrirliði Fram. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér fannst við ekki nægilega sterkir fyrstu þrjátíu mínúturnar en það lifnaði aðeins yfir okkur síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik,“ sagði Hlynur Atli Magnússon fyrirliði Fram eftir 5:4 tap fyrir Blikum í Árbænum í kvöld á Fylkisvelli þegar fram fór fyrsti leikur fjórðu umferðar karla í knattspyrnu.

„Við ræddum síðan í hálfleik hvað við þyrftum að gera betur - að stoppa í götin og mæta þeim, sem við gerðum.  Það dugði þó ekki í dag en þetta var í raun karakter sem við viljum sjá og sýna í öllum leikjum, sérstaklega næstu leikjum. Það má alltaf draga lærdóm af öllu en við verðum bara að bíta í það súra epli að fá engin stig úr þessum leik.   Við missum einbeitingu aðeins í lokin og það verður okkur eiginlega að falli en við þurfum til dæmis að múra fyrir í föstu leikatriðum en verðum að skoða þennan leik aftur og læra af honum,“ sagði fyrirliðinn.

Alveg eins líklegir í stöðunni 4:4

Guðmundur Magnússon, sem skoraði fyrsta mark Fram, sagði sitt lið ekki hafa verið með á nótunum í byrjun en síðan alveg eins líklega til að vinna leikinn.  „Mér fannst við ekki endilega yfirspilaðir í fyrri hálfleik þrátt fyrir að Blikar væru meira með boltann en við mættum ekki alveg rétt til leiks.  Vorum of langt frá þeim, gáfum þeim öll svæði sem þeir vildu og Blikar voru einfaldlega grimmari.  Við náum svo að skora rétt fyrir hálfleik, sem gaf okkur ákveðin kraft og svo ákváðum við koma inn í seinni hálfleikinn til gefa allt okkar og náðum að gera það. Í stöðunni fjögur-fjögur fannst mér við líklegri til að vinna leikinn en svo förum að skipta inná og það getur verið að að skiptingar hafi riðlað aðeins skipulagið hjá okkur og Blikar þá nýtt tækifærið í lokin.“

Sama uppskriftin og í fyrra

Fram er á botni deildarinnar eftir 4. umferðir með tvö stig eftir tvö jafntefli en markahrókurinn kannast við þá uppskrift.   „Okkur finnst auðvitað ekki gott að fá ekkert stig úr þessum leik en það gerðist svipað í Kópavoginum í fyrra þegar við skorum þrjú mörk og Blikar skora sigurmark á síðustu mínútu.  Það má því segja að þetta hafi verið svipuð uppskrift og í fyrra nema hvað þeir náðu ekki svona forskoti.   Við vorum í sömu stöðu í fyrra eftir fjóra leiki en nú finnst mér og sagði við strákana inni í klefa áðan að við værum búnir að spila við Val og Breiðablik og hefðu verið betra liðið einn og hálfan leik þar sem við erum betri og grimmari og sýnt hvað við getum.  Nú þurfum við bara að mæta þannig í næstu leiki, spila þannig frá byrjun og þá hef ég engar áhyggjur af stöðunni,“  sagði Guðmundur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert