Ég fagnaði marki Klæmints meira en eigin þrennu

Alex Freyr Elísson fagnar Stefáni Inga eftir eitt markanna.
Alex Freyr Elísson fagnar Stefáni Inga eftir eitt markanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hefði ekki fagnað þrennunni minni neitt ef leikurinn hefði endað jafntefli enda fagnaði ég marki Klæmints meira en ef það hefði verið mitt eigið, held að ég hafi aldrei fagnað marki eins mikið og þegar hann skoraði því það er ekki bara gríðarlega mikið fyrir hann heldur gríðarlega mikilvægt fyrir liðið og frábært fyrir þennan markaskorara að bjarga okkur,“ sagði Stefán Ingi Sigurðarson, sem skoraði þrennu fyrir Breiðablik í 5:4 sigri á Fram þegar liðin mættust í 4. umferð efstu deildar karla í fótbolta í kvöld. Leikurinn fór fram í Árbænum því verið er að laga völl Breiðabliks í Kópavogi.  

Markahrókurinn sagði óþarfi fyrir Breiðablik að koma sér í erfiða stöðu.  „Mér fannst þetta óþarfi.  Við vorum gríðarlega góðir fyrstu fjörtíu mínúturnar en misstum þá aðeins einbeitinguna og fáum þá mark á okkur, síðan annað mark með óheppni en við vorum vissulega búnir að hleypa þeim lengra inn í leikinn en við áttum að gera, áttum að vera klókari og halda áfram því sem við byrjuðum með en við getum bara sjálfum okkur um kennt að hleypa Fram svona mikið inní leikinn,“  sagði Stefán Ingi.  

„Við munum læra af þessu, það er á hreinu.  Við missum af mönnunum okkar, klárum sóknir okkar nógu vel og það er alveg í lagi að þruma boltanum í innkast í stað þess að fá fjóra eða fimm á sig svo við þurfum að læra af þessu og munum gera það.“

Stefán Ingi Sigurðarson skoraði þrennu fyrir Breiðablik í 5:4 sigri …
Stefán Ingi Sigurðarson skoraði þrennu fyrir Breiðablik í 5:4 sigri á Fram. Ljósmynd/Arnþór Birkisson

Veit ekki hvað var að gerast

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari var ekki viss um hvernig Fram komst inní leikinn en ánægður með baráttuandann í sínu liði og sigurinn sanngjarnan. „Ég átta mig ekki alveg á hvað var að gerast, fannst einhvern í kringum fertugustu mínútu rétt áður en Fram skorar að þá missum við aðeins einbeitingu, Fram skorar og kemur með sjálfstraustið í seinni hálfleik.

 Við vorum líklega of linir í vörninni, sáum ekki um mennina sem við áttum að sjá um og þurfum að skoða það.  Mér fannst samt ekki neitt brjálað í gangi hjá þeim allan seinni hálfleik en þegar Framarar fengu tækifærið nýttu þeir það svo sannarlega og gerðu það vel, eiga hrós skilið því það er ekkert auðvelt að koma til baka eftir að lenda með þrjú mörk undir,“ sagði þjálfarinn ánægður með að sínir menn unnu fyrir sigrinum.   

„Ég er bara ánægður með að við sóttum síðasta markið því mér fannst við eiga það fyllilega skilið fyrir að vera töluvert betra liðið í þessum leik en síðan er eitthvað sem við þurfum að taka á. Ég er ánægður með að við sýndum alvöru karakter með að þrátt fyrir að koma sér í erfiða stöðu þá hættum við aldrei og sóttum það sem við töldum okkur eiga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert