Katla Tryggvadóttir, sókndjarfur miðjumaður Þróttar, var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.
Katla fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína en hún skoraði tvö fyrstu mörk Þróttar í sigrinum á FH, 4:1, úr vítaspyrnum. Aðra þeirra fékk hún sjálf þegar markvörður FH braut á henni.
Katla lagði síðan upp þriðja markið fyrir Freyju Karín Þorvarðardóttur.
Katla, sem verður 18 ára í næstu viku, hefur nú skoraði sjö mörk í 21 leik í efstu deild, öll fyrir Þrótt, og er þegar orðin fimmta markahæst í frekar stuttri sögu félagsins í efstu deild.
Hún kemur úr Hlíðunum í Reykjavík, er uppalin í Val og spilaði fyrsta leikinn í efstu deild aðeins 15 ára gömul, einmitt gegn Þrótti í ágúst 2020.
Nánari umfjöllun um Kötlu ásamt liði fyrstu umferðarinnar má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.