FH og KR mætast í Bestu deild karla í knattspyrnu á Fylkisvelli í Árbænum á morgun.
Þetta kom fram á heimasíðu Knattspyrnusambandsins í dag en til stóð að leikurinn myndi fara fram á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í dag.
Leikurinn átti að hefjast klukkan 18 en í staðinn verður flautað til leiks klukkan 14 í Árbænum.
Yfirlýsing KSÍ:
Aðalstjórn FH tilkynnti KSÍ seint að kvöldi dags 27. apríl að aðalstjórn hafi lokað báðum grasvöllum félagsins í Kaplakrika til og með 4. maí og hefur knattspyrnudeild FH því hvorki aðgang að keppnisvelli né tilgreindum varavelli í Kaplakrika fyrir leik FH og KR í Bestu deild karla 28. apríl (í dag, föstudag).
Vegna ákvörðunar aðalstjórnar FH hefur mótanefnd KSÍ ákveðið að fresta leik FH og KR til laugardagins 29. apríl (á morgun) kl. 14:00 og fer leikurinn fram á Fylkisvelli. Þessi ákvörðun er tekin til að tryggja eðlilegan framgang Bestu deildar karla og er tekin á grundvelli greinar 28 í lögum KSÍ, greinum 12.1, 15.3, 15.7 og 18.2 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, og 4. grein starfsreglna nefndarinnar.