„Mér fannst við sýna góðan styrk og karakter með þessum sigri eftir vonbrigðin í síðasta leik,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, framherji FH, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins gegn KR í Bestu deild karla í knattspyrnu á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika í dag.
„Það hefur verið stígandi í þessu hjá okkur og þetta mót er rétt að byrja. Við verðum bara betri og betri með hverjum leiknum sem líður en það er líka þannig að það er allt frábært þegar að þú vinnur og svo er allt vonlaust þegar að þú tapar. Það er því okkar, reynslumestu leikmannanna, að þjappa hópnum vel saman og stefna í rétta átt,“ sagði Kjartan Henry.
Kjartan Henry, sem er 36 ára gamall, gekk til liðs við FH frá uppeldisfélagi sínu KR síðasta haust en mikið var rætt og ritað um leikmanninn og KR síðasta sumar þar sem hann spilaði lítið sem ekkert seinni hluta tímabilsins.
„Mér líður mjög vel í Hafnarfirðingum og ég er gríðarlega þakklátur fyrir það tækifæri að fá að koma hingað að spila fótbolta því það er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég er á stað þar sem ég finn að fólk vill hafa mig hérna og það hefur verið tekið ótrúlega vel á móti mér og ég nýt mín vel, bætti Kjartan Henry við í samtali við mbl.is.